Ráðstefnan Lagarlíf um eldi og ræktun fer fram 28. – 29. október 2021

Ráðstefnan Lagarlíf, um eldi og ræktun, verður haldin 28. – 29. október á Grand Hótel í Reykjavík. Mikill uppgangur er í íslensku fiskeldi og var útflutningsverðmæti greinarinnar í fyrra yfir 30 milljarðar króna, og um 11,5 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðung þessa árs, eða um 9% af heildarútflutningi landsmanna. Ljóst er að mikill vöxtur er í fiskeldi sem þegar er orðin ein af stoðgreinum útflutnings og má búast við innan fárra ára að greinin skili álíka verðmætum og þorskurinn gerir í dag. En bak við þessa velgengni eru mörg vel borguð störf og umtalsverð afleidd verðmætasköpun. Fiskeldi er mikilvægt fyrir mörg þjónustufyrirtæki sem nú blómstra sem aldrei fyrr. Til viðbótar má bæta því við að fiskeldið hefur byggst upp á stöðum þar sem stöðnun og samdráttur hafði verið um áratuga skeið, og snúið byggðaþróun rækilega við á Vestfjörðum og Austfjörðum. Ræktun í legi er talin lausn framtíðar fyrir matvælabúskap jarðarbúa og mikil tækifæri í áframhaldandi þróun atvinnugreinarinnar.

Við slíkar aðstæður er spennandi að reka ráðstefnu eldis- og ræktunargreina „Lagarlíf“ (áður Strandbúnað) sem vonandi mun blómstra og dafna við vaxandi velgengni greinarinnar. Það er einmitt við slíkar aðstæður að ráðstefnan hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga, orðin fimm ára gömul, og hafa eigendur og stjórn verið samstíga í þeirri þróun.

Nýtt nafn hefur verið tekið upp fyrir Strandbúnað, sem nú heitir Lagarlíf og jafnframt skipt um vörumerki og útlit kynningarefnis. Lögur er gamalt og gott íslenskt orð og nær utan um hvortveggja eldi og ræktun. Enska heiti ráðstefnunnar er Aqua-Ice, en aqua er einmitt enska orðið yfir lögur. Við höfum skilgreint eldi þar sem fiskar eru fóðraðir en ræktun er þar sem sjávardýr eru fóðruð af næringarefnum sem þegar eru fyrir hendi í sjónum. Lagarlíf er fallegt íslenskt nafn og lýsir því vel þeirri starfsemi sem atvinnugreinarnar á bak við ráðstefnuna standa fyrir. Enska heiti ráðstefnunnar er og hefur verið Aqua-Ice.

Ráðstefnan féll niður í fyrra vegna Covid 19, en var frestað til 28 – 29 október í ár. Með því var vonast til að Íslendingar hefðu náð þannig tökum á kórónaveirunni að mögulegt væri að halda fjölmenna ráðstefnu. Lagarlíf verður haldin á Grand Hótel í Reykjavík.

Á Lagarlífi verður boðið upp á fyrirlestra um eldi og ræktun, sagt frá því nýjasta sem er að gerast ásamt því að kynna atvinnugreinina út á við. Slík ráðstefna er jafnframt mikilvæg fyrir starfsmenn og stjórnendur að hittast, bera saman bækur sínar og afla sér nýrrar þekkingar. Ráðstefnan er ekki síður mikilvæg fyrir atvinnugreinar sem þjóna eldis- og ræktunargreinum, kynna þjónustu sína, hitta framleiðendur og mynda tengslabönd. Eitt af markmiðum ráðstefnunnar er að hún komist á dagatöl framleiðanda og þjónustuaðila og verði þannig tilefni til að hittast, skiptast á skoðunum og kynna þarfir og lausnir til að auka veg vaxandi útflutningsgreinar.

Í tengslum við Lagarlíf í haust munu framleiðendur standa fyrir vinnufundi norrænna sérfræðinga í laxeldi 27. október n.k. Vinnufundurinn „Nordic Salmon“ verður haldinn í húsnæði Matíss að Vínlandsleið 12. Viðfangsefni fundarins verða laxalús, ræktun á stórseiðum og fiskafóður framtíðar. Sérfræðingar frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Færeyjum og Íslandi munu halda fyrirlestra um allt það nýjasta sem er að gerast á þessum sviðum. Laxalúsin er mikið vandamál og kostar eldið háar fjárhæðir á hverju ári, bæði sem tjón og eins við fyrirbyggjandi ráðstafanir. Ein af hugmyndum framtíðar er að stækka seiðin áður en þeim er sleppt í sjókví, og stytta þannig tímann sem laxinn er í sjókví. Seiðaeldi er strandeldi sem kallar á miklar áskoranir og kostnað en býður upp á mikil tækfæri til frekari verðmætasköpunar til framtíðar. Vinnufundurinn er styrktur af AG Fisk.

Yfir 90% af kolefnaspori framleiðslu á laxi kemur frá fóðrinu, ekki vegna flutnings þess, heldur vegna ruðningsáhrifa við ræktun á soyabaunum sem er uppistaða í fóðurframleiðslu. Þó fiskeldi sé umhverfisvænasta matvælaframleiðsla samtímans, er enn hægt að gera betur og mikið af spennandi tækifærum fram undan. Ræktun á skelfiski og þörungum vinnur hins vegar með umhverfinu og skilar jákvæðum umhverfisáhrifum. Margir sjá slíka ræktun sem framtíðarlausn fyrir umhverfisvæna matvælaframleiðslu framtíðar fyrir mannkynið.