Frábær aðsókn á ráðstefnuna Lagarlíf 2021

Ráðstefnan Lagarlíf var haldin á Grand hótel dagana 28.-29. október. Ráðstefnan tókst einstaklega vel að öllu leyti og var met þátttaka að henni, á fimmta hundrað manns.

Ráðstefnan opnaði með ávarpi stjórnarformans Strandbúnaðar, sem er rekstraraðili ráðstefnunnar Lagarlífs, í fullum sal Gullteigs. Halldór sagði frá því hvernig brugðist var við Covid 19 og fella þurfti ráðstefnuna niður á síðasta ári, og hún síðan tímasett í október í staðin fyrir mars, eins og venja er, en stjórnendur gerðu ekki ráð fyrir að hægt væri að halda Lagarlíf í mars 2021. Hann greindi frá nafnbreytingu á ráðstefnunni, en hún hét áður Strandbúnaður, einnig breytingu á vörumerki og útliti kynningarefnis.

Halldór sagði það vera stefnu ráðstefnuhaldara til framtíðar að fyrirtæki í eldi og ræktun tækju þá daga frá sem ráðstefnan er haldin til að hitta birgja og þjónustufyrirtæki til skrafs og ráðagerða og treysta viðskiptasambönd sín. Einnig að aðrir hagaðilar eldis og ræktunar sjái tækifæri í að mæta til leiks til að fylgjast með því sem væri að gerast í þessari vaxandi og mikilvægu atvinnugrein, t.d. sveitastjórnir og embættismenn.

Nýr ráðuneytisstjóri í Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu ávarpaði síðan fundinn. Í framhaldi voru fyrirlestrar um áhrif fiskeldis á byggðaþróun í Norður Noregi, áhrif fiskeldis á samfélagsþróun á Austfjörðum og Vestfjörðum og síðan um efnahagsleg árif fiskeldis á efnahag Vestfjarða.

Það má segja að þessi málstofa hafi opnað umræðu um það sem síðar kom fram á mörgum fyrirlestrum á Lagarlíf, sem haldnir voru í tveimur málstofum á hverjum tíma. Fyrirlestrum sem fjölluðu um hin ýmsu málefni fiskeldis og ræktunar á Íslandi. Að loknum fyrri ráðstefnudegi hittust gestir ráðstefnunnar á barnum til að ræða málin á léttum nótum. Um kvöldið bauð fyrirtækið Scale AQ gestum til samfundar í samkomusal hótelsins.

Ekkert er mikilvægara á svona ráðstefnu en hitta mann og annan, skiptast á skoðunum, deila upplýsingum og mynda tengsl og viðskiptasambönd. Stjórnendur Lagarlífs eru þakklátir fyrirtækinu fyrir þetta frábæra framlag.

Á föstudeginum var ráðstefnunni haldið áfram og meðal annarra málstofa voru tvær sem haldnar voru af atvinnugreinum í eldi og þjónustu. Önnur málstofan var frá fyrirtækjum og þjónustuaðilum sjóeldis, og hins vegar í atvinnugreinum í landeldi. Mikill áhugi er fyrir landeldi á Íslandi í dag og mörg fyrirtæki þegar í rekstri sem hyggja á mikla stækkun og nýir aðilar með áform um uppbyggingu á slíkum rekstri. Rétt er líka að taka það fram að seiðaeldi hjá laxeldisfyrirtækjum sem eru í eldi í sjókvíum, er landeldi. Gríðarleg uppbygging er í seiðaeldi á Íslandi í dag og standa framkvæmdir yfir fyrir marga milljarða króna. Það er ekki bara vegna aukningar á sjókvíaeldi, en stækkun seiða fyrir sleppingar í sjó er stefna flestra fyrirtækjanna í dag.

Ráðstefnunni lauk á föstudaginnum með aðalfundi Strandbúnaðar, sem er upphaf að nýrri ráðstefnu sem verður haldin á næsta ári. Þar bættust nýir hluthafar í hópinn, sem sýnir áhuga atvinnugreinanna á ráðstefnunni og eins vilja fólks til að leggjast á árarnar til að gera veg hennar sem mestan í framtíðinni.

Gunnar Þórðarson

Framkvæmdastjóri Lagarlífs